Nýjast á Local Suðurnes

Fáir yfirmenn Reykjanesbæjar greiða útsvar til sveitarfélagsins

Einungis þrír af sjö helstu yfirmönnum Reykjanesbæjar halda lögheimili í sveitarféaginu og greiða því sitt útsvar þangað, þeirra á meðal er bæjarstjórinn Kjartan Már Kjartansson, en auk hans hafa framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs og framkvæmdastjóri Velferðarsviðs lögheimili í sveitarfélaginu.

Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á yfirstjórn Reykjanesbæjar frá síðustu kosningum og hafa meðal annars verið ráðnir til starfa þrír nýjir sviðsstjórar sem ekki halda lögheimili í Reykjanesbæ og greiða því ekki útsvar til þessa skuldsettasta sveitarfélags landsins. Nýráðinn fræðslustjóri Reykjanesbæjar býr í Hafnarfirði, hafnarstjóri býr í Grindavík og sviðssjóri stjórnsýslusviðs í Sveitarfélaginu Garði auk þess sem  sem nýráðinn mannauðsstjóri sem kemur til starfa á haustmánuðum kemur af höfuðborgarsvæðinu.

Bæjarstjórinn hefur áhyggjur af útsvarsgreiðslum

Kjartan Már Kjartansson

Kjartan Már Kjartansson

Bæjarstóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson gerði útsvarsgreiðslur bæjarbúa að umræðuefni í nýlegum pistli sem birtur var á heimasíðu Reykjanesbæjar fyrir skömmu, þar tók hann meðal annars dæmi um útsvarsgreiðslur manns miðað við 500.000 króna mánaðarlaun:

“Dæmi: Maður sem er með kr. 500.000.- í mánaðarlaun greiðir kr. 72.600.- í útsvar pr. mánuð eða kr. 871.200.- á ári (72.600*12).  Heildar útsvarsálagning hans í álagningarskránni væri því kr. 871.200.- Til að reikna þetta afturábak þarf að deila með 12 í kr. 871.200.-, sem gera 72.600.- og aftur með 14,52% í 72.600.- sem gera þá kr. 500.000.- Það ætti að gefa góða nálgun á uppgefin mánaðarlaun,” segir Kjartan í pistlinum.

Grunnlaun sviðsstjóra og framkvæmdastjóra hjá Reykjanesbæ eru nær tvöfalt hærri en í dæmi bæjarstjórans hér að ofan þannig að ljóst má vera að Reykjanesbær er að tapa töluverðum útsvarstekjum með því að ráða til starfa fólk sem ekki heldur lögheimili í sveitarfélaginu.