Túnfiskum landað í Grindavík – Mikil verðmæti ef hann er meðhöndlaður rétt
Jóhanna Gísladóttir GK 557 kom til hafnar í Grindavík eldsnemma í morgun úr fyrstu túnfiskveiðiferð sumarsins. Er þetta annað sumarið í röð sem Vísir geri Jóhönnu út til túnfiskveiða. Alls veiddust 19 fiskar í þessum róðri. Fisknum var landað í morgun og er væntanlega orðinn klár til útflutnings en hann fer með flugi til Japans þar sem hann verður seldur á uppboði á stærsta fiskmarkaði heims, Tsukiji. Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar.
Mjög gott verð fæst fyrir fiskinn ef hann er meðhöndlaður rétt og ástand hans gott þegar hann kemur á markað. Hjá Vísi hefur mikill metnaður verið lagður bæði í veiðar og meðhöndlun. Kvótinn.is fylgdist með lönduninni og verkun í morgun:
„Fiskurinn kemur í land ísaður í stóru kari, hver fyrir sig vafinn innan í klæði til að koma í veg fyrir skemmdir af völdum íssins. Um borð er hann sporskorinn, tálknin fjarlægð og gert að honum.
Í landi er fiskurinn hausskorinn og snyrtur eftir kúnstarinnar reglum undir eftirliti japansks sérfræðings. Hann er svo settur í kistu úr frauðplasti og kafísaður og gengið mjög vandlega frá honum. Meðal annars er síritari fyrir hitastig settur í hverja kistu. Segja má að fiskurinn sé kistulagður fyrir „útförina”.
En látum meðfylgjandi myndband sem tekið var í morgun tala sínu máli.“ Segir á Kvótinn.is