Nýjast á Local Suðurnes

Rekstraröryggi Keilis ótryggt að mati Ríkisendurskoðunar

Að mati Ríkisendurskoðunar er rekstraröryggi Keilis ehf. enn ótryggt. Stofnunin leggst gegn því að ríkissjóður gefi eftir 260 m.kr. skuld félagsins sem er tilkomin vegna húsnæðiskaupa þess.

Í eftirfylgniúttekt sinni á Keili ehf. frá árinu 2013 beindi Ríkisendurskoðun fimm ábendingum til Keilis ehf., mennta- og menningarmála­ráðuneytis og Háskóla Íslands. Keilir ehf. var hvattur til að tryggja eigið rekstraröryggi, gæta að því að fjárveitingar ríkisins rynnu til umsaminna verkefna og efla faglegt gæðastarf sitt. Eins var Háskóli Íslands hvattur til að sjá til þess að frumgreina­kennsla Keilis upp­fyllti fag­legar gæðakröfur. Loks var mennta- og menningarmála­ráðuneyti hvatt til að efla eftir­lit sitt og að­hald með einka­reknum skólum sem það gerir þjónustusamn­inga við.

Í nýrri eftirfylgniúttekt sinni sér Ríkisendurskoðun ekki ástæðu til að ítreka þessar ábend­ingar sínar. Í meginatriðum hefur verið tekið á þeim þáttum sem athuga­semdir voru gerðar við. Rekstrar­öryggi Keilis er þó enn ótryggt, m.a. vegna áframhaldandi tap­rekst­urs félagsins og 260 m.kr. skuldar þess vegna fasteignakaupa af Þróun­ar­félagi Keflavíkur­flugvallar ehf. (Kadeco). Ríkis­endurskoðun leggst gegn því að Keili verði afhent um­rædd eign án endurgjalds með eftirgjöf á skuld félags­ins við ríkissjóð.

Nái Keilir ekki að endurgreiða skuld sína er eðli­legra að ríkissjóður leysi eignina til sín og Ríkis­eignum verði heimilað að gera leigu­samning við Keili gegn sam­bæri­legri greiðslu og aðrir skólar greiða sem ekki eru í beinni eigu ríkisins.