Nýjast á Local Suðurnes

Brot á reglum um meðferð sprengiefnis geta varðað allt að fjögurra ára fangelsi

Gríðarlegur viðbúnaður var á iðnaðarsvæði í Njarðvík í gær þegar gamalt sprengiefni fannst í gámi, en íbúar og starfsfólk í fyrirtækjum við tvær götur þurftu að yfirgefa heimili sín í um sex klukkustundir á meðan um 150 kíló af dýnamíti voru gerð óvirk. Þá var stóru svæði lokað fyrir umferð.

Strangar reglur gilda um geymslu og meðferð sprengiefnis, en það skal geyma í sérstökum geymslum og í öruggri fjarlægð frá híbýlum manna og frá stöðum þar sem gera má ráð fyrir að fólk dveljist – Þannig eru í reglugerð um sprengiefni gefnar upp öryggisfjarlægðir fyrir sprengiefnageymslur þar sem sérstaklega er tekið fram að ekki skuli geyma sprengiefni innan 800 metra radíuss frá skólum, leikvöllum og stærri samkomustöðum.

Brot á reglum um meðferð sprengiefnis geta varðað sektum eða fangelsi allt að fjórum árum nema þyngri refsing liggi við lögum samkvæmt, segir í reglugerðinni.