Nýjast á Local Suðurnes

Sláandi og óásættanlegar niðurstöður við umferðareftirlit

Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum

Síðastliðinn fimmtudag hafði Lögreglan á Suðurnesjum eftirlit með hraðakstri á Faxabraut í Reykjanesbæ, en þar er leyfilegur hámarkshraði 30 kílómetrar á klukkustund. Á rúmlega tveimur og hálfri klukkustund voru alls 45 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 58 km/klst og þá var einn ökumannanna mældur í tvígang á þessum sama stað.

Þessi niðurstaða er sláandi og óásættanleg, segir í tilkynningu lögreglu sem birt er á Facebook og telur lögregla rétt er að minna ökumenn á að 30 km hámarkshraði í íbúahverfum og í námunda við skóla er ekki ákveðinn fyrir tilviljun, heldur byggir á fræðilegum forsendum. Rétt er að benda á að ef ekið er á óvarðan vegfaranda á 50 km hraða áttfaldast líkurnar á banaslysi samanborið við 30 km hraða. Þá sextánfaldast líkurnar sé ökuhraðinn 60 km.

Lögreglumenn munu sem fyrr halda uppi virku eftirliti með hraðakstri, sem og öðrum umferðarlagabrotum, og eru ökumenn áminntir um að virða hraðatakmörk.