Nýjast á Local Suðurnes

Um 100 árekstrar á bílastæðum við verslunarkjarna á Fitjum – “Minnir á villta vestrið”

Töluverðar umræður hafa skapast í íbúahópnum Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri um bílastæðamál við verslunarkjarnann á Fitjum í Njarðvík, en þar virðist sem lítið sé spáð í umferðarreglum þegar kemur að akstri um svæðið.

Þannig segir maður sem hóf umræðuna að akstur um svæðið minni á villta vestrið og ljóst sé að skipuleggja þurfi svæðið betur. Flestir sem taka þátt í umræðunum eru sammála um að svæðið sé illa skipulagt og merkingar af skornum skammti, þannig benda nokkrir aðilar á að svæðið sé stórhættulegt fyrir gangandi vegfarendur.

“… maðurinn minn fer gangandi sinna ferða og hann segist þurfa nota indíánann á þetta: bíða átekta og skjótast svo eins og vindurinn yfir planið í von um að verða ekki keyrður niður af bíl úr óvæntri átt.” Segir ein kona í umræðum um málið.

Þá eru nokkrir sem benda á að hægri reglan eigi að gilda við akstur um svæðið, flestir eru á því að lítið sé farið eftir því.

Suðurnes.net kannaði til gamans árekstrartíðni á svæðinu, en rétt um 100 árekstrar, flestir minniháttar og án tilkynninga um meiðsli, eru skráð á bílastæðunum frá því Bónus opnaði verslun sína árið 2003.