Lögregla fylgdi veikum farþega úr flugvél frá Munchen

Íslenskum farþega var fylgt frá borði flugvélar Icelandair sem var að koma frá Munchen á fimmta tímanum í dag af lögreglu. Grunur er um að farþeginn gæti verið smitaður af kórónuveiru, að því er fram kemur í frétt Mbl sem greindi fyrst frá málinu.
Í frétt Mbl segir að farþeginn hafi tilkynnt um veikindi eftir að hann kom upp í vélina. Þá er haft eftir blaðamanni Mbl sem var um borð í vélinni að aðrir farþegar hafi verið óánægðir með það að maðurinn hafi ekki tilkynnt um einkennin fyrr en hann var kominn um borð. Rýma þurfti sætaraðir í kringum hann vegna veikindanna.
Í fréttinni kemur einnig fram að flestir farþeganna um borð í vélinni hafi verið að koma frá hættusvæðum í Ölpunum og sé skylt að fara strax í sóttkví við komuna til landsins, samkvæmt tilmælum frá sóttvarnalækni.