Nýjast á Local Suðurnes

Rafmagnsvagn kom vel út á Keflavíkurflugvelli

Isavia hefur undanfarna daga verið með rafmagnsvagn til reynslu á Keflavíkurflugvelli. Starfsfólk flugvallarins hefur ekið vagninum um flugvallarsvæðið með það að markmiði að skoða fýsileika þess að nota rútur sem ganga fyrir rafmagni til flutnings farþega frá flugvél að flugstöð.

Starfsfólk lýsti yfir mikilli ánægju með vagninn enda er hann hljóðlátur, umhverfisvænn og skemmtilegur í akstri. Isavia hefur þegar til notkunar nokkra rafmagnsbíla innan flugvallarsvæðisins enda eru aðstæður mjög ákjósanlegar, sléttlendi, stuttar vegalengdir og gott aðgengi að rafmagni. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem gerð er tilraun með rafdrifna hópferðabíla innan flugvallarsvæðisins.

Vagninn, sem var fenginn að láni frá bílaumboðinu Öskju, er útbúinn sem strætisvagn og útfærður með hliðsjón af íslenska almenningsvagnakerfinu. Við reynsluaksturinn komu í ljós nokkrir þættir sem mætti breyta til þess að sníða rafvagn sem best að farþegaakstri innan flugvallarsvæðis. Innréttingar þurfa til að mynda að gera ráð fyrir plássi fyrir farangur og því að flestir farþegar kjósa að standa þar sem vegalengdir eru stuttar. Veigamesti þátturinn er þó sá að vagninn sem var prófaður gerir ráð fyrir mikilli orkunotkun og um 200 km drægi. Vegna hagfelldra aðstæðna á flugvellinum þyrfti drægið ekki að vera nema 60-75 km. Isavia gæti því notað vagna með töluvert minni rafhlöðu. Með minni rafhlöðu væri hægt að lækka vagninn þannig að hann kæmist allar þær leiðir sem núverandi vagnar aka auk þess sem hann myndi léttast um hátt í 2,5 tonn.

„Við erum mjög spennt fyrir því að skipta út sem flestum af okkar tækjum fyrir umhverfisvænni kosti. Í aðgerðaráætlun okkar í umhverfismálum er einmitt gert ráð fyrir að við endurnýjun tækja verði valin vistvænsta lausnin,“ segir Elín Árnadóttir aðstoðarforstjóri Isavia, í tilkynningu á vef fyrirtækisins. „Við lærðum mikið af þessum reynsluakstri og nú ætlum við að fara yfir það til þess að meta nákvæmlega hvernig draumavagninn væri útfærður. Þetta er mikilvægt skref í átt að kolefnishlutleysi. Það er metnaðarfullt markmið sem við á Keflavíkurflugvelli stefnum ótrauð að.“