Nýjast á Local Suðurnes

Hefja tímasetta aðgerðaráætlun til að bæta stöðu Suðurnesja

Mynd: Wikipedia

Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu Oddnýjar G. Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi þar sem lagt er til að skipaður verði starfshópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum sem vinni tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun á svæðinu. Lagt er til að hópurinn skili skýrslu til forsætisráðherra sem kynni Alþingi niðurstöðurnar.

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fjallaði um tillöguna og fékk umsagnir frá Grindavíkurbæ, Isavia ohf., Reykjanesbæ, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Suðurnesjabæ og Sveitarfélaginu Vogum. Umsagnir um málið voru allar jákvæðar en þar er m.a. bent á sérstöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum þar sem m.a. mjög stór hluti starfar í tengslum við ferðaþjónustuna auk þess sem hlutfall íbúa af erlendum uppruna er hærra á Suðurnesjum en á öðrum svæðum. Þá hefur íbúafjölguninni fylgt tilheyrandi álag á félagslega innviði, ekki síst þá sem eru á forræði ríkisins, svo sem heilbrigðisþjónustu, löggæslu, framhaldsskóla og vegakerfi.

Lögð er áhersla á að starfshópurinn meti áhrif niðursveiflu í ferðaþjónustu og færri flugferða um Keflavíkurflugvöll á sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Oddný hefur lagt málið fyrir á þremur þingum og að þessu sinni var tillagan samþykkt þvert á flokkslínur með öllum greiddum atkvæðum. Hún segir á Facebook-síðu sinni vera ánægð með niðurstöðuna og bindur vonir við að verkefnið sem Alþingi hefur falið ráðuneytunum að ráðast í muni skila Suðurnesjamönnum góðum ávinningi.