Nýjast á Local Suðurnes

Löggur í leyni moka seðlum í ríkiskassann – Hraðamæla í myrkri með öll ljós slökkt

Lögreglan á Suðurnesjum hefur væntanlega ekki gengið þetta langt - Mynd: Facebook / Lögreglan í Queensland Ástralíu

Lögreglan á Suðurnesjum hefur undanfarin misseri sektað hátt í hundrað ökumenn í umferðarátaki í þéttbýli og þá sérstaklega í grennd við skóla. Þá hafa margir ökumenn verið stöðvaðir fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut. Fjölmargir ökumenn hafa verið sektaðir á meðan á átakinu hefur staðið auk þess sem að minnsta kosti einn ökumaður var sviptur ökuréttindum á staðnum.

Suðurnes.net hefur undanfarið fengið nokkrar ábendingar þess efnis að lögregla láti lítið á sér bera við eftirlitið, þannig hafa lögreglumenn við hraðaeftirlit á Reykjanesbraut slökkt öll ljós á lögreglubílum eftir að dimma tekur, lögreglubílum hefur verið lagt aftan við skilti við Njarðarbraut og við eftirlit á Faxabraut, þar sem á fimmta tug ökumanna var stöðvaður, var lögregla staðsett í innkeyrslu við íbúðarhús og í brekku þannig að ökumenn urðu þeirra ekki varir fyrr en þeir voru stöðvaðir.

Lögreglan á Suðurnesjum svaraði ekki fyrirspurn Suðurnes.net vegna málsins, en nokkuð ljóst er að einhverjar milljónir króna hafi náðst í ríkiskassann við þessar aðgerðir lögreglu hvar hátt í eitt hundrað ökumenn hafa verið sektaðir. Lágmarkshraðasekt í dag er 10.000 krónur, en þær hækka hratt við hvern auka kílómeter þannig að gera má ráð fyrir að stór hluti ökumanna fái hærri sektir en það.

Samkvæmt verklagsreglum varðandi hraðamælingar sem birtar eru á vef lögreglunnar er ekkert því til fyrirstöðu að lögreglumenn mæli hraða bifreiða úr launsátri. Áhugasamir geta kynnt sér þær reglur sem gilda hér.

Svipðað mál kom upp í Ástralíu fyrr á þessu ári en eftir miklar kvartanir almennings var lögreglumönnum gert að láta af slíkum aðgerðum.