Nýjast á Local Suðurnes

Þór gæti séð Grindavík fyrir helmingi þess rafmagns sem þarf – Tæki fjórar klukkustundir að tengja

Varðskipið Þór gæti séð Grindavík fyrir helmingi þess rafmagns sem bærinn þarf, komi til náttúruvár af einhverju tagi. Skipið kom til Grindavíkur í gær í fyrsta skipti og var tilgangurinn að æfa tengingu við höfnina og dreifikerfi HS Veitna í bænum.

Æfing Landhelgisgæslunnar, HS Veitna og Grindavíkurhafnar er mikilvæg ef nýta þarf varðskipið Þór sem hreyfanlega aflstöð eins og gert var á Dalvík í óveðrinu í desember, en við hönnun Þórs var horft til þess að mögulegt yrði að senda rafmagn í land vegna rafmagnsleysis. Skipið getur flutt 2 megavött sem er nóg til þess að halda meðalstóru sveitarfélagi gangandi í neyðartilvikum – Í tilviki Grindavíkur gæti skipið séð sveitarfélaginu fyrir um helmingi þess rafmagns sem til þarf.

Í fréttum RÚV í gær kom fram að starfsmenn HS veitna hafi skoðað vélarrúm skipsins og tengingarmöguleika. Tengja þarf tuttugu og einn kapal úr skipinu inn í dreifistöð á hafnarkantinum og það ætti að ganga nokkuð hratt, og ekki taka lengri tíma en fjórar klukkustundir, sagði Ólafur Stefánsson, svæðisstjóri hjá HS Veitum í kvöldfréttum RÚV.