Misskilningur varðandi tilgang og fyrirkomulag umfjöllunar Sjálfbærniráðs
Fulltrúi Framsóknarflokksins í Sjálfbærniráði Reykjanesbæjar telur verklagi sem lagt var upp með í ráðinu hafi verið snúið við, án nægilegrar umræðu innan þess og vakti athygli á því, á síðasta fundi, að fyrirhugað hafi verið að ræða hlutverk og tilgang ráðsins en þeim dagskrárlið hafi verið frestað.
Í fundargerð er tekið fram að ráðinu sé falið, samkvæmt erindisbréfi að vinna að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun innan sveitarfélagsins og vera vettvangur umræðna um ýmis þróunarverkefni sem styðja við sjálfbæra þróun á sviðum og í ráðum og nefndum Reykjanesbæjar.
Einungis eitt ráð hafi þegar sent ráðinu verkefni, Atvinnu- og hafnaráð, sem sendi verkefni sem snýr að gerð áætlunar um meðferð og flokkun úrgangs.
Þóranna Kristín Jónsdóttir fulltrúi B-lista lagði fram eftirfarandi bókun í kjölfarið á umræðum um tilgang ráðsins:
Fulltrúi B-lista samþykkir ekki bókunina þar sem hér hefur verið snúið við því verklagi sem lagt var upp með innan ráðsins, að hennar mati án nægilegrar umræðu innan þess.
Fulltrúi vill vekja athygli á því að fyrirhugað hafi verið að ræða hlutverk og tilgang ráðsins en þeim dagskrárlið hafi verið frestað. Hlutverk og tilgangur hafi áhrif á hvers konar verkefni eigi heima inni á borði ráðsins og þar með m.a. hvers konar verklag sé best til þess fallið að koma þeim verkefnum á dagskrá.
Fulltrúi B-lista harmar jafnframt að misskilningur hafi orðið innan stjórnsýslunnar varðandi tilgang og fyrirkomulag umfjöllunar ráðsins um fundargerðir ráða en ekki síður að þeir aðilar sem athugasemdir hafa haft við málið hafi ekki nálgast fulltrúa í ráðinu til að óska eftir frekari upplýsingum og ræða málin. Fulltrúi telur liggja beinast við að ræða málið á næsta fundi, í framhaldi af umræðu um hlutverk og tilgang ráðsins, og nýta tækifærið til þess að leiðrétta þennan misskilning með greinargóðri umræðu innan ráðsins og bókun sem skýrir tilgang og fyrirkomulag til hlítar.