Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Stefnum í að verða fúlasta þjóðin í heimi

Ramm-falskur föstudagspistill í anda Leonice þessa vikuna. Svo er sérsveitin send á skreiðarhjalla en ekki indversku prinsessuna sem hefur skotleyfi á allt og alla.

Þrjár skreiðar eru látnar og 65 eru mikið særðar eftir að sérseit ríkislögreglustjóra réðist á skreiðahjalla í Garði fyrr í vikunni. Mikið er ég búinn að skemmta mér yfir þessu máli og mikið var ég forvitinn þegar ég heyrði fréttir um að Garðurinn, mitt gamla bæjarfélag væri lokað og viðbúnaður mikill. Litla USA hvað segi ég nú bara. Það getur ekki verið að innfæddur hafi tilkynnt skothvellina til lögreglu – þetta var nánast daglegt brauð að heyra í gasbyssu í heiðinni í nágreni skreiðarhjallanna – en þetta bjargaði vikunni hjá mér.

Árni Árna

Árni Árna

„Viltu mótmæla háu verði á áfengi á börum? Skrifaðu nafn og kennitölu á þennan lista“ gæti verið hvíta lyginn hjá Ástþóri Magnússyni forsetaframbjóðanda sem safnaði undirsskriftum fyrir forsetaframboðið meðal draugfullra norðlendinga á djamminu. Þvílíkur snillingur, það þarf nú ekki marga stuðningsmenn til að gefa kost á sér og það ætti að segja manni eitthvað ef þetta er eina leiðinn. Ástþór hefur einnig verið gagnrýndur fyrir að heimsækja framhaldsskóla norðan heiða – ég er að vísu ekki sammála að það sé siðlaust. Ungt fólk er alveg með á nótunum, ef við treystum ungi fólki til að kjósa, af hverju má það ekki skrifa undir slíka lista? Hættum þessari forsjáhyggju og treystum ungu fólki.

Loksins var áfengisfrumvarp Vilhjálms Árna þingmanns afgreitt úr allsherjarnefnd. Það er ágætt að þeir sem vilja búa í frjálsu samfélagi og þar sem einstaklingurinn ber ábyrgð á sjálfum sér, sjái hvaða flokkar styðji málið. Samfylkingin og VG studdu ekki frumvarpið úr nefnd – það er ekki eins og málið sé afgreitt, með afgreiðslunni fer það í röðina um að komast til umræðu á þinginu sjálfu. Það er ótrúlegt af fulltrúum þessa tveggja flokka að þora ekki taka umræðuna – ekki er þessa afstaða að rífa upp fylgið upp í 10%.

Fyrsti íslenski fótboltastrákurinn sem stundar vinnu eins og venjulegt fólk, er fundinn. Frá þessu var greint í sjónvarpsviðtali í vikunni. Þessi harðjaxl vinnur fullan vinnudag og mætir á fótboltaæfingar. Talið er að þessi harðjaxl eigi ættir sínar að rekja í beinan karllegg Ingólfs Arnarssonar og eina vitið að Kári Stefánsson verði fenginn til að rannsaka genin í þessari nýju tegund íþróttamanna á Íslandi.

Kolsýringsmettað loft, lágt hitastig, óþéttar hurðar og ber steinsteypan í gólfi gæti verið lýsing á ófullnægjandi bílaverkstæði. En þetta er bílageymslan á bráðavaktinni sem nú er nýtt undir sjúklinga. Já það er fjör að leggjast inn fárveikur og vera bara rúllað út í bílskúr. Nóttin kostar tæpar 6.000 krónur á bráðavaktinni og því liggur fyrir að miðað við þetta er skárra að kveljast á gistiheimili fyrir sumu upphæð. Ég átti nú 5 sólarhringa á bráðavaktinni þar sem lítið var um þjónustu, getgátur um hvað var að mér og ófullnægjandi aðstöðu. Starfsfólkið okkar í heilbrigðiskerfinu er yndislegt, þau eru bara alltof fámenn, eru að drukkna í álagi og gera kraftaverk þrátt fyrir aðbúnað og vinnuálag.

Það var öllum ljóst að Sigmundur Davíð forsætisráðherra er vel giftur þegar hann gaf kost á sér í pólitíkina. Núna er blásið upp fréttir um bankainnistæðu eiginkonu hans í erlendum banka. Hvað kemur okkur við hvað er inn á bankareikningi hennar og þá sér í lagi í hvaða banka innistæðan liggur inn á? Ég veit bara ef ég ætti mikið fjármagn og vildi ávaxta þá yrði fyrir valinu erlendur banki þar sem ávöxtun í íslenskum bönkum er vart í boði,svo lágir eru vextirnir. Ég hugsa bara hvernig stjórnmálamenn viljum við ? Þú mátt ekki tilheyra vissum fjölskyldum, engin í fjölskyldunni má starfa í opinberri stjórnsýslu eða í embætti sem er áberandi, þú mátt ekki hafa misstigið þig í lífinu, tekist á við erfiðleika, þú verður að vera svona en ekki hinseigin – það er sama hvernig fólk gefur kost á sér, samfélagið tekur þig alltaf af lífi. Ég er eiginlega bara sammála Bigga löggu um að við stefnum í að verða fúlasta þjóðin í heimi.

Ég skil ekki þennan hæfileika hjá Bubba Morthens að geta stanslaust lent í hári saman við fólk, nauða sköllóttur. Nú er hann í erjum við Steinar Berg og að sjálfsögðu fer einvígið fram í fjölmiðlum. Er ekki tímabært að Bubbi líti aðeins í eigin barm, hvað veldur því að eiga stanslaust í deilum við fólk. Ég tel að það þurfi að lægja um nokkra metra á sekúndu í egó-rokinu og aðeins að tóna sig niður í hrokanum.

Talandi um erjur og almenn leiðindi, nú fær Salka Sól að finna fyrir því hjá indversku prinsessunni Leonice. Litli frekju ljónsunginn segir Sölku vera núll og nix og líkir tónlistarklíkunni á Íslandi við hvíthettina KKK. Þá ætlar lagvísa prinsessan á fund dr. Phil og ræða í sjónvarpsþættinum hans um hvíthettu-stemminguna í íslenska tónlistargeiranum. Ég vona hreinlega að hún geri það. Sá þáttur yrði mikil skemmtun og vonandi sýnir dr. Phil tónlistarmyndband frá henni til að sanna gæðin sem þar eru á ferðinni. Verst að það er ekki hægt að fá raunveruleikan og hvað þá almenna skynsemi í sprautuformi til að gefa henni vænan skammt beint í beran bossan. Ég sé eina leið til að hún geti hlotið tilnefningu á íslensku tónlistarverðlaununum og það er að fara að veita skammarverðlaun – þá yrði hún loksins númer eitt þessi elska.