Nýjast á Local Suðurnes

Neyðarstjórn HS Veitna virkjuð

Neyðarstjórn HS Veitna hefur verið virkjuð til að yfirfara viðbragðsáætlanir og fyrirtækið er í samstarfi við almannavarnir, HS Orku og fleiri aðila vegna mögulegra áhrifa á þjónustu fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Heita vatnið sem HS Veitur dreifa til viðskiptavina kemur frá HS Orku í Svartsengi og megnið af kalda vatninu kemur frá Lágum, sem eru mitt á milli Svartsengis og Fitja. Raforkan kemur yfir flutningskerfi Landsnets frá Svartsengi, Reykjanesvirkjun og Suðurnesjalínu. Eldgos eða hraunrennsli á óheppilegum stað getur haft veruleg áhrif á afhendingu þessara nauðsynlegu lífsgæða og því verður það samstarfsverkefni þessara fyrirtækja auk almannavarna að halda þessari grunnþjónustu gangandi eins og mögulegt er. Síðustu eldgos á Reykjanesi hafa hins vegar ekki haft nein áhrif á þjónustu HS Veitna.

HS Veitur eru í viðbragðsstöðu og munu leita leiða til að takmarka áhrif á notendur eins og nokkur er kostur. Fyrirtækið mun upplýsa viðskiptavini verði einhverjar breytingar á stöðunni.

Viðskiptavinum er jafnframt bent á að fylgjast með frekari upplýsingum frá almannavörnum, á Facebook https://www.facebook.com/almannavarnir/

Nánari upplýsingar frá sérfræðingum Veðurstofunnar er að finna hér Aflögun norðvestan við Þorbjörn heldur áfram | Fréttir | Veðurstofa Íslands (vedur.is)