Nýjast á Local Suðurnes

Í málarekstri við WOW vegna 31 milljóna króna skuldar

Hótel Keflavík hefur staðið í málarekstri við lággjaldaflugfélagið WOW air vegna þjónustu sem hótelið telur sig hafa veitt flugfélaginu án þess að hafa fengið greitt fyrir. Alls er um að ræða 13 reikninga sem allir voru gefnir út á árinu 2016 og nemur heildarfjárhæð þeirra rúmlega 31 milljón króna auk dráttarvaxta.

Reikningarnir eru tilkomnir vegna hótelgistingar, fæðiskostnaðar og aksturs farþega WOW air. Steinþór Jónsson, hóelstjóri á Hótel Keflavík, segir að flugfélagið hafi beint þessum farþegum til hótelsins þegar flug þeirra féll niður eða brottför þeirra dróst óeðlilega lengi. Þetta kemur fram á Vísi.is, en þar segir Steinþór þó að umrædd 31 milljón sem WOW er með útistandandi við hótelið sé ekki heildarfjárhæð viðskiptanna þeirra á milli, flestir reikningar hafi fengist greiddir.

Þá kemur fram í fréttinni að WOW-air hafi ekki samþykkt umrædda reikninga og að farið hafi verið fram á að óháðir matsmenn færu yfir þá, því var hins vegar hafnað af Landsrétti um mitt síðasta ár.