Nýjast á Local Suðurnes

HS Veitur breyta útreikningi vatnsgjalda

HS Veitur hafa breytt forsendum við útreikning vatnsgjalda þannig að nú er miðað við fermetrastærð húsnæðis í stað fasteignamats þess. Breytingarnar leiða ekki til tekjuaukningar hjá fyrirtækinu heldur breytist skiptingin milli viðskiptavina þess.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu sem finna má í heild sinni hér fyrir neðan:

Eins og viðskiptavinir hafa vafalaust tekið eftir þá hefur forsendum fyrir útreikningi vatnsgjalda verið breytt þannig að nú er miðað við fermetra húsnæðis í stað fasteignamats þess.

Það eru nokkur ár síðan t.d. Veitur í Reykjavík og Norðurorka á Akureyri tóku upp þetta breytta verklag þ.e. að miða við fermetra í stað fasteignamats. Ástæðan var að sú aðferð þótti endurspegla betur tilkostnað við þjónustuna þó fermetrar séu að sjálfsögðu ekki óumdeildur eða gallalaus mælikvarði á tilkostnaðinn. Það er álit HS Veitna að það þyki almennt eðlilegt að samskonar hús greiði sama vatnsgjald án tillits til þess hvar þau standa. Annað sem mælir gegn fasteignamati eru miklar og mismunandi breytingar þess milli ára. Þannig hækkaði sem dæmi fasteignamatsverð í Reykjanesbæ nú að meðaltali um 13,6%, í Garðinum um 9,2% og í Vestmannaeyjum, þar sem HS Veitur reka líka vatnsveitu, var hækkunin 6,6%. Þessar mismunandi breytingar hefðu leitt til mismunandi hækkunar vatngjalda sem endurspegluðu ekki á nokkurn hátt breytingar eða mismun á tilkostnaði. Hefði áfram verið miðað við fasteignamat og óbreytta álagningarprósentu hefðu tekjur HS Veitna hækkað í fullu samræmi við hækkun fasteignamatsins. Vegna mismunandi þróunar fasteignamatsins eru og hafa verið ákveðin vandkvæði á að breyta álagningarprósentu svo nokkru nemi.

Þessir gallar við notkun fasteignamats hafa að sjálfsögðu verið ljósir um all langa hríð og hefur verið til skoðunar hjá HS Veitum að breyta þessu nokkur síðustu ár en af því hefur ekki orðið fyrr en nú. Eitt af því sem vafðist fyrir okkur er að þessi breyting felur í sér umtalsverða tilfærslu vatnsgjalda á atvinnuhúsnæði í heild frá íbúðarhúsnæði í heild þó einstakar eignir geti verið undantekningar. Skýringin varðandi atvinnuhúsnæðið er auðvitað sú að fasteignamat á atvinnuhúsnæði er almennt lægra á hvern fermeter en á íbúðarhúsnæði.

Þegar gjaldskráin (verð á fermeter og fastagjald á matseiningu) var ákveðin lá fyrir nýtt fasteignamat og sömuleiðis stærð húsnæðis á svæðinu. Það var gengið út frá þeirri forsendu að breytingin sem slík leiddi ekki til tekjuaukningar HS Veitna þannig að tekjur af því húsnæði sem vatnsgjöld voru innheimt af  2017 yrðu í heild þau sömu árið 2018 en óhjákvæmilega verða tilfærslur milli flokka húsnæðis samanber að ofan. Út frá þessum forsendum var gjaldið 219 kr./fermeter og 5.700 kr./matseiningu ákveðið. Það má þannig halda því fram að þeir sem hækka nú hafi hingað til notið þess að greiða óeðlilega lág vatnsgjöld miðað við aðra viðskiptavini, að minnsta kosti í samanburði við Reykjavíkursvæðið og Akureyri. Framvegis munu þá allar breytingar verða eins hjá öllum viðskiptavinum en ekki háðar mismunandi flökti á fasteignamati sem getur skapast af margskonar ástæðum.

Það er ítrekað að breytingin sem slík leiðir ekki til tekjuauka hjá HS Veitum heldur breytist skiptingin milli viðskiptavina fyrirtækisins. Það er von okkar að ofangreindar skýringar á breytingunni séu fullnægjandi og um leið biðjumst við afsökunar á því hversu seint þessar upplýsingar og skýringar eru á ferðinni.

Júlíus Jónsson, forstjóri.