Nýjast á Local Suðurnes

Sjálfbært Reykjanes – Stóriðjan og flugvöllurinn tekin með í reikninginn

Reykjanes var á dögunum valinn einn af 100 sjálfbærustu áfangastöðum í heimi árið 2017 og voru ólíkir þættir, s.s. stjórnun áfangastaðar, náttúrufar, meðferð dýra, landslag, umhverfismál, menning, hefðir, félagsleg velferð, viðskiptaumhverfi og gestrisni á meðal þess sem metið var við úttekt á svæðinu. Þá var einnig tekið tillit til stóriðju í Helguvík og alþjóðaflugvallarins á Keflavíkurflugvelli.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni, en hann er nú staddur í Cascais í Portúgal þar sem hann veitti viðurkenningunni móttöku í gær.

Kjartan Már segir alþjóðasamtökin Green Destinations, sem standa að valinu, hafa heimsótt Reykjanesið og að “sjálfbærni vöruskiptajöfnuðurinn” sé í plús.

“Samtökin gera sér hins vegar grein fyrir því að fyrirtæki af ýmsum gerðum og stærðum eru hluti af tilverunni en á meðan svæði eru að gera jafn marga góða hluti og við á Reykjanesi; og “sjálfbærni vöruskiptajöfnuðurinn” er í plús, erum við í góðum málum. Endurnýjanleg orka, hitaveitur, jarðvarmavirkjanir, sjálfbær sjávarútvegur og fyrirætlanir um sorpflokkun, vega þar þungt sem og allt þetta hraun og landsvæði sem við eigum ósnortið.” Segir Kjartan Már meðal annars á Facebook.