Nýjast á Local Suðurnes

Dagskrá Ljósanætur tekur á sig mynd

Menningar- og fjölskylduhátíðin Ljósanótt sem haldin er í Reykjanesbæ ár hvert verður sett þann 3. september næstkomandi en þá munu nemendur úr öllum grunnskólum bæjarins og elstu deildum leikskólanna, um 2.000 talsins, koma fylktu liði á setninguna og sleppa marglitum blöðrum til himins, eins og venja er.

Dagskrá hátíðarinnar er að taka sig mynd og á meðal þess sem verður í boði í ár er Sagnakvöld á Nesvöllum, sýningar í Duushúsum, harmonikkuball, boxsýning, akstur fornbíla og bryggjusöngur auk fjölda annara viðburða og skemmtikrafta. Hátíðinni lýkur svo ávallt með lýsingu Bergsins og glæsilegri flugeldasýningu.

Ljósanætursýning Listasafns Reykjanesbæjar er að þessu sinni unnin í samstarfi við Ljósop, félag áhugaljósmyndara og nefnist Andlit bæjarins, en eins og nafnið gefur til kynna verða til sýnis ljósmyndir af íbúum bæjarins. Verkefnið byrjaði smátt en hefur heldur betur undið upp á sig og er nú talið hafa sögulegt gildi, þá sérstaklega fyrir komandi kynslóðir.

Dagskrá hátíðarinnar er enn í mótun en hægt er að fylgjast með framvindu mála á heimasíðu hátíðarinnar, ljosanott.is