Nýjast á Local Suðurnes

Forstjóri Stolt Sea Farm: “Framleiðslan á Íslandi lofar góðu”

Sala á senegalflúru frá eldisstöð Stolt Sea Farm á Reykjanesi hófst á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og sölutölur lofa góðu, 53,3% aukning varð í sölu á senegalflúru á tímabilinu og veltuaukningin varð 43,1%. Senegalflúran er framleidd í eldisstöð fyrirtækisins á Reykjanesi.

Hagnaður Stolt Sea Farm af eldi senegalflúru, sandhverfu og styrju var 5,2 milljónir dollara, tæpar 700 milljónir ÍSK, í samanburði við 40 milljóna ÍSK tap á fyrsta ársfjórðungi. Helsta ástæðan fyrir hagstæðari útkomu er aukning í sölu á sandhverfu og senegalflúru.

“Það var góð afkoma hjá Stolt Sea Farm á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.” Sagði Niels G. Stolt-Nielsen forstjóri fyrirtækjasamstæðu Stolt-Nielsen í tilkynningu og hann bætti við “Framleiðslan frá nýju eldisstöðvunum okkar á Íslandi lofar góðu.”

Stolt Sea Farm á Reykjanesi er hluti af skipa- og iðnaðarsamstæðu norska fyrirtækisins Stolt-Nielsen S.A. sem er skráð í kauphöllinni í Noregi og rekur 15 eldisstöðvar í sex löndum – Fyrirtækið er einnig hluti af Auðlindagarði HS Orku.