Játaði að hafa selt hlaupbangsa sem innihéldu fíkniefni
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gær íslenskan karlmann á fimmtugsaldri vegna gruns um að hann hefði selt hlaupbangsa sem innihéldu fíkniefni. Í tilkynningu frá lögreglu segir að maðurinn hafi játað sök.
Málið kom upp í síðasta mánuði eftir að tvær unglingsstúlkur veiktust hastarlega eftir að hafa borðað hlaupbangsa sem munu hafa innihaldið kannabisefni og morfín.
Við húsleit fundust tól og tæki til fíkniefnaframleiðslu, þar á meðal á hlaupböngsum. Maðurinn játaði að hafa framleitt fíkniefni og selt þau um skeið. Hann hefur ekki komið við sögu lögreglu áður vegna fíkniefnamála. Rannsókn málsins er á lokastigi, segir jafnframt í tilkynningu lögreglu.