Engin skemmtidagskrá þann 17. júní – Íbúar hvattir til að grilla saman

Þjóðhátíðardegi Íslendinga verður að venju fagnað í Reykjanesbæ, sem og annarsstaðar á Suðurnesjum þann 17. júní næstkomandi. Í ár verður dagskrá þó með breyttu sniði í ljósi samkomutakmarkana og tilmæla frá Almannavörnum til sveitarfélaga um að leita nýrra leiða við hátíðarhöld.
Dagskráin er að taka á sig mynd og verður birt í endanlegri mynd á vef Reykjanesbæjar innan skamms en í megindráttum verður hún á þessa leið.
Kl. 12 Hátíðarmessa í Keflavíkurkirkju
Kl. 13 Hátíðardagskrá í skrúðgarðinum í Keflavík. Fánahylling, þjóðsöngur, fjallkona, hátíðarræða.
Ekki er gert ráð fyrir skemmtidagskrá fyrir fjölskyldur í garðinum í þetta sinn en Þrautaleikur fjölskyldunnar í samstarfi við Skemmtigarðinn verður í boði allan daginn. Verðlaun í boði fyrir heppna þátttakendur.
Íbúar hvattir til að flagga og setja 17. júní fána út í glugga.
Auk þess eru íbúar hvattir til að gera sér glaðan dag t.d. með götu- eða hverfisgrilli, útileikjum og öðru skemmtilegu.
kl. 19:30 -22:00 Kvöldskemmtun fyrir 7.-10. bekk.