Nýjast á Local Suðurnes

Hagnaður Samkaupa jókst um milljarð á milli ára

Verslun Nettó við Krossmóa

Suðurnesjafyrirtækið Samkaup hf., sem rekur verslanir víða um landið, högnaðist um 1.267 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um tæpan milljarð á milli ára.

Munar þar mestu um sölu á dótturfélaginu Búr ehf. á árinu, en það var selt fyrir rúmlega 962 milljónir króna til Innness ehf. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins nam 455 milljónum króna og jókst um 78 milljónir króna á milli ára.

Eignir Samkaupa námu 6,6 milljörðum króna í lok ársins. Þar af námu fastafjármunir 2,8 milljörðum króna en veltufjármunir 3,8 milljörðum króna. Skuldir voru rúmir 4 milljarðar króna og nam eigið fé fyrirtækisins því 2,6 milljörðum króna í árslok.

Fyrirtækið greiddi 293 milljónir króna í arð til eigenda sinna á síðasta ári. Kaupfélag Suðurnesja er stærsti eigandi fyrirtækisins með 51,49% hlut. Stafir lífeyrissjóður á 14,19% eignarhlut og Kaupfélag Borgfirðinga á 12,72% hlut.