Nýjast á Local Suðurnes

Styðja tillögu um að nýtt íþróttahús við Stapaskóla verði löglegt keppnishús

Á vordögum 2017 óskaði Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar (ÍT ráð) eftir því að íþróttafélögin sendu frá sér óskir um hver brýnustu verkefnin væru í náinni framtíð og hver forgangsröðin væri, sem og að félögin hugi að stefnumótun í starfi sínu.

Tvær tillögur voru teknar fyrir og ræddar á síðasta fundi ráðsins, önnur var sú að framtíðaruppbygging við Afreksbraut sem Reykjanesbær samþykkti árið 2006 að framkvæma yrði hrint í framkvæmd. Hin var sú að byggingarnefnd við Stapaskóla myndi leggja til að tilvonandi íþróttahús yrði stækkað þannig að þar yrði löglegur keppnisvöllur í körfubolta.

Eftir umræður var ákveðið að ÍT ráð muni að fara í framtíðarstefnumótun í samstarfi við íþróttafélögin á öllum íþróttasvæðum í Reykjanesbæ þar sem farið verður nánar yfir hugmyndina um framtíðaruppbyggingu sem og aðrar hugmyndir þar að lútandi.

Þá styður ÍT ráð þá tillögu að stækka tilvonandi íþróttahús við Stapaskóla og leggur til að Umhverfis- og skipulagssvið kappkosti að íþróttahúsið verði löglegt keppnishús með áhorfendastúkum.