Nýjast á Local Suðurnes

Flutningsjöfnuðurinn innanlands hagstæðastur á Suðurnesjum

Alls fluttu 11.315 einstaklingar milli sveitarfélaga innan sama landsvæðis árið 2015 en 8.762 flutti frá einu landsvæði til annars. Þegar aðeins er horft til flutninga innanlands milli landshluta, eru fjórir landshlutar með hagstæðan flutningsjöfnuð árið 2015, aðrir fjórir landshlutar með óhagstæðan flutningsjöfnuð og Norðurland vestra með þrjá brottflutta umfram aðflutta innanlands. Flutningsjöfnuðurinn var hagstæðastur á Suðurnesjum, en þangað fluttu 157 umfram brottflutta frá landsvæðunum átta.

Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofunni, en stofnunin metur búferlaflutninga á grundvelli upplýsinga um breytingar á lögheimili í íbúaskrá Þjóðskrár. Búferlaflutningar eru gerðir upp á grundvelli skráningardags í þjóðskrá en ekki eftir því hvenær flutningur fór fram. Rétt er að hafa í huga að nokkur töf getur orðið á því að útlendingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir í íbúaskrá og þá er vert að taka fram að Keflavíkurflugvöllur hefur dregið að sér töluvert af erlendu vinnuafli undanfarna mánuði sem ekki er tekið með í reikninginn enn.