Stjórnin vildi fá skrifleg svör frá framkvæmdastjóra Kadeco – Sýslar með eignir á Ásbrú

Stjórn Þróunarfélagsfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, óskaði eftir því að Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri félagsins geri stjórninni skriflega grein fyrir viðskiptum sínum á svæðinu. Þetta segir Sigurður Kári Kristjánsson, fráfarandi stjórnarformaður Kadeco, í samtali við Kjarnann.
Kjartan rekur fyrirtækið Airport City, í samstarfi við athafnamanninn Sverri Sverrisson, en þeir félagar hófu viðskiptasamband í kjölfarið á umdeildum viðskiptum Sverris við Kadeco. Airport City stundar fasteignaviðskipti á Ásbrú, en fyrirtækið hefur þó ekki keypt fasteignir af Kadeco, að sögn Sigurðar Kára.
“Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér í tilefni fyrirspurna þinna þá liggur fyrir að Kadeco hefur aldrei átt í fasteignaviðskiptum við félagið Airport City ehf. og ekki selt því félagi neinar fasteignir.“ Sagði Sigurður Kári við Suðurnes.net, þegar miðillinn fjallaði um viðskipti félaganna í lok maí.
„Aðkoma félagsins að þeim kaupsamningum [innsk. Blm.: við önnur fyrirtæki en Kadeco] er því engin, enda eru þeir gerðir á milli tveggja lögaðila sem eru Kadeco óviðkomandi.“ Sagði Sigurður Kári.
Sigurður Kári hefur ekki svarað fyrirspurnum Suðurnes.net síðan skipt var um stjórn Kadeco á aðalfundi félagsins á þriðjudag.