Nýjast á Local Suðurnes

Níu Suðurnesjamenn valdir í æfingahóp körfuknattleikslandsliðsins

Craig Pedersen, þjálfari landsliðs karla, og aðstoðarþjálfarar hans Arnar Guðjónsson og Finnur Freyr Stefánsson, hafa valið og boðað 24 leikmenn sem munu mæta til æfinga þann 20. júlí þegar æfingar hjá landsliðinu hefjast.

Hópurinn verður minnkaður fljótlega niður í hóp 14 til 15 leikmanna sem æfir saman í sumar og úr honum verður endanlegt 12 manna lið valið sem heldur út til Finnlands á lokamót EM, EuroBasket 2017.

Grindvíkingarnir eru þrír, Dagur Kár Jónsson, Ólafur Ólafsson og Jón Axel Guðmundsson sem leikur um þessar mundir með Davidson háskólanum í Bandaríkjunum. Njarðvíkingarnir eru sömuleiðis þrír, Logi Gunnarsson, Elvar Már Friðriksson sem leikur með Barry háskóla í Bandaríkjunum og Kristinn Pálsson sem leikur með Marist háskóla í Bandaríkjunum. Þá eru Keflvíkingarnir einnig þrír, Hörður Axel Vilhjálmsson sem leikur með BC Astana í Kasakstan, Sigurður Gunnar Þorsteinsson sem spilar með AE Larissas í Grikklandi og Gunnar Ólafsson sem spilar með St. Francis University í Bandaríkjunum.