Nýjast á Local Suðurnes

Skoruðu aðeins eitt stig í 1. leikhluta – Grindavík úr leik eftir ótrúlegan oddaleik

Mynd: Grindavik.is

Grindvíkingar eru úr leik í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í körfuknattleik eftir stórt tap gegn Haukum, í oddaleik liðanna, sem fram fór í Schen­ker-höll­inni í Hafnarfirði í kvöld. Þrátt fyrir slappan leik í kvöld geta Grindavíkurstúlkur þó borið höfuðið hátt enda hafa Haukar aðeins tapað þremur leikjum í deildarkeppninni í vetur, þar af tveimur í einvíginu gegn Grindavík.

Leikur Grindavíkurliðsins í upphafi var afar slappur, Staðan eftir fyrsta leikhluta var ótrúleg, 12-1, fyrir Hauka, enda gekk ekkert hjá Grindvíkingum að koma knettinum ofan í körfuna. Einföldustu skot vildu hreinlega ekki niður. Það gekk örlítið betur hjá Grindvíkingum að koma knetti í körfu í öðrum leikhluta, en staðan var þó orðin virkilega vonlaus í leikhléi, 32-11 fyrir Hauka og nokkuð ljóst að eftirleikurinn yrði auðveldur.

Sjö fyrstu stig síðari hálfleiks voru Grindvíkinga en Haukar svöruðu með því að setja niður næstu níu stig, staðan orðin 41-18 og ljóst að Grindvíkingar myndu ekki ná að brúa það bil, lokatölurnar urðu svo 74-39.

Whitney Michelle Frazier var langbest í slöku liði Grindavíkur, skoraði 14 stig og tók 8 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir kom næst með 5 stig.