Nýjast á Local Suðurnes

Byggja 27 íbúðir við Nesvelli á sjö mánuðum

Modulbyggingar ehf., Moelven ByggModul AS  og þróunarfélagið Klasi ehf., hafa undirritað samning um byggingu fyrsta fjölbýlishússins á Íslandi sem byggt er með einingahúsaaðferðum Moelven í Noregi. Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu í dag.

Húsið verður byggt í Reykjanesbæ, úr forsmíðuðum timbureiningum og tekur aðeins sjö mánuði í byggingu þar til íbúðir eru tilbúnar til afhendingar fullbúnar, á vel samkeppnishæfu kaupverði segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Fjölbýlishúsið sem Klasi byggir eru íbúðir sem eru fyrst og fremst ætlaðar fyrir eldri borgara enda í góðum tengslum við þjónustumiðstöðina á Nesvöllum.

Byggingin sem nú er komin í framleiðslu verður á fjórum hæðum með 27 íbúðum, en alls er gert ráð fyrir að byggðar verði um 200 íbúðir á Nesvöllum til viðbótar á næstu árum. Um er að ræða umhverfisvænar byggingar en áhersla er á að sú nálgun gangi í gegnum allt ferlið við byggingu og síðan notkun íbúðanna með því að huga að orkusparnaði.

Húsin eru byggð innandyra við bestu aðstæður sem eykur gæði og minnkar sóun. Allar íbúðir eru með loftræstikerfi sem eykur loftgæði innanhúss og minnkar líkur á rakaskemmdum.  Einnig verður vatnsúðunarkerfi í íbúðunum.

Fyrsta skóflustungan mun verða tekin í hádeginu í dag við Móavelli.