Nýjast á Local Suðurnes

Kettir láta ekki plata sig – Lausaganga áfram leyfð

Lausaganga katta verður ekki bönnuð í Reykjanesbæ á næstunni samkvæmt pistli sem bæjarstjórinn, Kjartan Már Kjartansson, birti á nokkrum íbúasíðum á Facebook. Samkvæmt pistli bæjarstjórans hefur töluverð vinna verið lögð í að kanna málið og er niðurstaðan sú að besta ráðið til að draga úr lausagöngu katta sé að ala þá upp sem innikisur.

Pistill bæjarstjórans í heild sinni:

Sæl öll.
Til upplýsingar.
Vegna kvartana um ágang sílamáfs annars vegar og lausagöngu katta hins vegar vil ég upplýsa eftirfarandi. Bæjarráð Reykjanesbæjar fól mér (bæjarstjóra) að kanna hvort og þá hvað væri hægt að gera til að stemma stigu við ágangi sílamáfs og vandræða sem hlýst af lausagöngu katta s.s. kattaskítur í görðum nágranna, sandkössum, smáfugladráp, kattaofnæmi o.fl. Í stuttu máli hefur sú könnun leitt í ljós að í báðum málum virðist lítið hægt að gera.
Sílamáfurinn er fyrst og fremst í leit að æti. Í samtali við fuglafræðing hjá Náttúrufræðistofnun kom fram að besta ráðið til að losna við áganginn er að ganga vel frá sorptunnum og öðrum stöðum þar sem fuglinn kemst í æti. Það dugar lítið sem ekkert að fækka honum með því að skjóta eða eitra. Ekki heldur með því að stinga á eggin. Þá verpir hann bara aftur.
Kettir sem ekki alast upp sem “inni”-kisur leita alltaf út ef tækifæri gefst. Ef lausaganga katta væri bönnuð þyrfti að framfylgja því banni m.a. með því að handsama lausa ketti og það getur reynst erfitt. Kettir eru veiddir í svokölluð fellibúr og þeir láta ekki plata sig þannig nema einu sinni. Síðan þyrfti að geyma þá og annast í aðstöðu sem væri samþykkt af MAST þangað til eigendur gæfu sig fram. Þegar kisi væri kominn aftur heim myndi hann grípa fyrsta tækifæri sem gæfist til að sleppa út aftur, annað hvort um opna hurð eða glugga. Þá væri erfitt að veiða hann aftur í fellibúr. Besta ráðið til að draga úr lausagöngu katta er því að ala þá upp sem innikisur.