Nýjast á Local Suðurnes

Siggar kveðja varahlutabransann

AB varahlutir hafa tekið yfir rekstur SS hluta og þar með yfirtekið rekstur varahlutaverslunar AB varahluta í Reykjanesbæ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu á Facebook. Í kjölfarið munu þeir Sigurður Helgi og Sigurður Þór láta af störfum, en þeir hafa rekið verslunina undanfarin áratug.

Tilkynning fyrirtækisins í heild:

Eftir þrettán ár hjá okkur í AB varahlutum í Reykjanesbæ er komið að stórum tímamótum. Sigurður Helgi og Sigurður Þór hafa ákveðið að láta ljós sitt skína á öðrum sviðum og AB varahlutir taka við rekstri SS hluta.

Verslunin lokar klukkan 12 á föstudag og verður lokuð á laugardaginn á meðan við innleiðum ný kerfi. Vignir stendur vaktina áfram og tryggir að sem allra minnst rask verði á starfseminni að öðru leyti á meðan við komum okkur fyrir. Staðsetning og opnunartími verður áfram óbreytt.

SS hlutir hafa haldið utan um rekstur AB varahluta á Reykjanesi síðustu tíu árin með stakri prýði. Við í AB varahlutum erum spennt fyrir þessu verkefni og er markmiðið að reyna að halda í það frábæra þjónustustig sem verslunin okkar í Reykjanesbæ er þekkt fyrir. Við þökkum Siggunum tveimur kærlega fyrir vel unnin störf og sendum okkar bestu strauma með þeim í komandi verkefni.