Nýjast á Local Suðurnes

Skemmtiferðaskip nýta þjónustu á Suðurnesjum í auknum mæli

Tveggja ára samstarf Reykjaneshafnar, Markaðsstofu Reykjanes og Reykjanesbæjar varðandi komu smærri skemmtiferðaskipa til Suðurnesja virðist vera að skila árangri, en í ár hafa fjögur slík skip nýtt sér þjónustuna. Í kynningum hefur áhersla verið lögð á að Keflavíkurhöfn henti vel til móttöku slíkra skipa.

Málin voru rædd á síðasta fundi stjórnar hafnarinnar og eftirfarandi var lagt fram:

Stjórn Reykjaneshafnar fagnar því að það starf sem hófst á árinu 2019 við markaðssetningu m.a. á Keflavíkurhöfn sem viðkomustað smærri skemmtiferðaskipa virðis vera að skila sér. Í ár hafa fjögur skemmtiferðaskip komið á ytri höfnina og nýtt sér þá aðstöðu í Keflavíkurhöfn sem þjónustar léttabáta varðandi losun og lestu farþega eða vöru. Eitt skemmtiferðaskip lagðist að hafnarkanti í Keflavíkurhöfn þar sem farþegar voru sóttir af ferðaþjónustuaðilum til skoðunarferðar á Suðurnesjum.

Er það von Stjórnar Reykjaneshafnar að þetta sé aðeins upphafið að meiri umferð slíkra skipa til Keflavíkurhafnar á komandi árum.