Nýjast á Local Suðurnes

Fá niðurstöður mælinga vegna USi í vikulok – Golfari kvartaði undan mengun

Sérfræðingur hjá eftirlitsteymi Umhverfisstofnunar, Einar Halldórsson, segir að tvær ábendingar hafi borist í gær um lyktarmengun frá verksmiðju United Silicon í Helguvík, en slökkt var á ljósbogaofni verksmiðjunnar um klukkan 9 í gærmorgun vegna viðhalds og hann keyrður upp á ný um klukkan 13. Náðst hefur að keyra ofnin á fullu álagi undanfarna daga og hefur kvörtunum vegna lyktarmengunar snarfækkað í kjölfarið.

 „Kvörtunum hefur fækkað. Það kom engin ábending í gær þegar ofninn var stöðvaður á milli klukkan 9 og 13. Svo kom ein kvörtun klukkan 15 frá manneskju á golfvellinum í Leiru. Sú ábending gæti verið tengd því að ofninn var stöðvaður,“ segir hann í samtali við Rúv.

Fyrstu vikuna eftir að ofninn var ræstur á ný var hann óstöðugur, að sögn Einars. „Síðan um þar síðustu helgi hefur ofninn verið stöðugur. Hitinn ætti að vera orðinn það mikill í afsoginu að lyktarmengunin eyðist alveg.“ Síðan um þar síðustu helgi hefur borist að meðaltali ein kvörtun um lyktarmengun á dag.

Mælingarnar sem miða að því að komast að því hvaða efni það eru sem valda lyktarmengun og af hverju hún stafar hafa verið í fullum gangi og að sögn Einars er von á niðurstöðum úr þeim í lok vikunnar.