Nýjast á Local Suðurnes

Töluverður viðbúnaður við komu flugvélar frá Verona

Stór hópur hefur unnið að undirbúningi vegna komu flugvélar Icelandair frá Verona um klukkan 17 á morgun, laugardag. Rúmlega 70 farþegar eru um borð í vélinni og hafa þeir dvalið á svæði sem telst vera áhættusvæði vegna Covid 19 veirunnar.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Almannavarna og sóttvarnalæknis sem haldinn var rétt í þessu.

Á fundinum kom fram að notast verði við rútu til að ferja farþega úr vélinni, þaðan verði haldið inn í rými sem engir aðrir farþegar hafa aðgang að. Í kjölfarið fara svo þeir farþegar sem sýna engin einkenni sýkingar heim til sín í 14 daga sóttkví. Sýni einhverjir farþegar hins vegar einkenni verða tekin sýni af þeim. Markmiðið að koma öllum sem fyrst heim til sín.

Líkt og áður segir kemur stór hópur fólks að verkefninu í samvinnu við Landlæknisembættið, en þar má nefna starfsfólk Icelandair, Isavia og fagaðila frá Heil­brigðis­stofn­un Suður­nesja.