Nýjast á Local Suðurnes

Björg Erlingsdóttir ráðin sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs

Björg Erlingsdóttir hefur verið ráðin sviðstjóri frístunda- og menningarsviðs hjá Grindavíkurbæ, en hún tekur við starfinu af Þorsteini Gunnarssyni, sem á dögunum var ráðinn sveitarstjóri í Skútustaðarhreppi. Björg hefur undanfarna daga verið að kynnast starfinu og bænum undir handleiðslu Þorsteins en hún mun koma að fullu til starfa þann 1. desember næstkomandi.

Björg er fædd í Reykjavík árið 1970 en uppalinn á Akureyri frá 1973. Björg er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri líkt og ýmsir aðrir góðir starfsmenn Grindavíkurbæjar. Björg er með BA-próf í þjóðfræði frá Háskóla Íslands og master ásamt sérnámi í safnafræðum frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Þá er hún einnig með diplómapróf MPA frá HÍ í opinberri stjórnsýslu.

Björg hefur undanfarin ár verið sviðsstjóri miðlunarsviðs Listasafns Íslands en áður var hún 7 ár á Höfn í Hornafirði sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarða, framkvæmdastjóri Jöklasýningar og Jöklaseturs, auk þess að vera einn af framkvæmdastjórum sveitafélagsins. Menningarmál, atvinnumál, ferðaþjónusta og félagsmiðstöð heyrðu undir hennar starf fyrir austan.