Keflvíkingar vildu slátra Sláturhúsinu og Njarðvíkingar vildu tvö fjölnota íþróttahús
Ný framtíðarsýn Reykjanesbæjar í aðstöðumálum fyrir íþróttafélögin í sveitarfélaginu var kynnt á fundi Íþrótta og- tómstundaráðs félagsins á dögunum. Ráðgjafafyrirtækið Capacent vann meðal annars skýrslu fyrir sveitarfélagið varðandi framtíðarsýnina en í skýrslunni koma meðal annars fram hugmyndir forráðamanna íþróttafélaganna varðandi uppbyggingu á þeirra svæðum.
Forráðamenn Keflavíkur höfðu stórar hugmyndir um svæðið við Sunnubraut og Hringbraut, en á meðal þeirra framkvæmda sem Keflvíkingar vildu ráðast í var að rífa íþróttahúsið við Sunnubraut, sem oft er nefnt Sláturhúsið á meðal hörðustu stuðningsmanna liðsins, og byggja nýtt við knattspyrnuvöllinn. Sú hugmynd var þó ekki efst á óskalista Keflvíkinga því fyrst vildu menn ráðast í miklar framkvæmdir við knattspyrnusvæðið og byggja æfingaaðstöðu fyrir fótboltann með gervigrasi, gera betri stúku við Keflavíkurvöll og betri aðstöðu fyrir áhorfendur auk þess að snúa vellinum og bæta við þremur æfingavöllum þar við hliðina á og ofan á gamla malarvöllinn.
Njarðvíkingar vildu einnig gera breytingar á sínum högum, en á meðal hugmynda þar á bæ var að byggja tvö fjölnota íþróttahús, eitt við Afreksbraut hjá keppnisvelli UMFN sem yrði knattspyrnuvallarhús, aðalkeppnishús körfuknattleiksdeildarinnar og innihéldi félagsaðstöðu allra sex deilda UMFN og annað við Stapaskóla með löglegum keppnisvelli fyrir körfubolta, stúku og 25 metra almenningssundlaug.