Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarstjóri bendir ósáttum íbúum á að senda inn athugasemdir við deiliskipulag

Fyrirhuguð bygging Hrífufangs ehf. á 77 íbúðum í þriggja hæða fjölbýlishúsi með bílakjallara á lóðinni við Hafnargötu 12 í Reykjanesbæ hefur ollið töluverðu fjaðrafoki á samfélagsmiðlunum að undanförnu, en ekki eru allir sáttir við umfang þeirra bygginga sem stendur til að reisa á svæðinu.

Sérstaklega hefur borið á umræðum um málið á Facebook-síðunni Reykjanesbær gerum góðan bæ betri, en í umræðum þar hafa bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson og framkvæmdarstjóri Umhverfissviðs sveitarfélagsins, Guðlaugur Helgi Sigurjónsson blanda sér í umræðurnar.

Nokkrir meðlima hópsins hafa sakað bæjaryfirvöld um að standa ekki rétt að málum varðandi auglýsingar á fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi reitsins. Framkvæmdarstjóri Umhverfissviðs hefur svarað fyrir þessar ásakanir í umræðum um málið og segir skipulagið hafa verið auglýst á réttan hátt.

“Skipulagið var auglýst í Lögbirtingi, á VF og hefur legið upp á upplýsingartöflu hér í Ráðhúsinu allan auglýingartíman. Þegar og ef þetta skipulag verður samþykkt af USK ráði og svo bæjarstjórn þá mun það verða auglýst í B-tíðindum lögum samkvæmt.” Segir Guðlaugur Helgi meðal annars í svari við ásökunum um að rangt hafi verið staðið að málum.

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar benti fólki á að enn sé mögulegt að skila inn athugasemdum vegna deiliskipulagsbreytinganna á vef Reykjanesbæjar, en frestur til þess rennur út þann 2. febrúar næstkomandi.

Nú hefur verið sett í gang undirskriftasöfnun vegna málsins, þar sem forsvarsmenn söfnunarinnar telja að að þessi tillaga muni umbylta elsta bæjarhluta Keflavíkur og hafa þannig neikvæð áhrif á svipmót og ógni sérstæðum byggingar- og menningararfi bæjarins. Um 250 manns hafa skrifað undir í söfnuninni á vefnum þegar þetta er ritað.