Nýjast á Local Suðurnes

Umdeilt myndband úr Grindavík vekur athygli – Húmor eða virðingaleysi?

Þrátt fyrir miklar annir við sauðburð gáfu ábúendur á Hópi í Grindavík sér tíma til að setja saman þetta stórskemmtilega myndband, sem sýnir sauðburðinn í nýju ljósi. Myndbandið, sem fékk umfjöllun á suðurnes.net í gær og síðar á vef Kvennablaðsins hefur vakið mikla athygli, en yfir 11.000 manns hafa skoðað það þegar þetta er ritað.

Myndbandið sem augljóslega er gert í gríni hefur vakið misjöfn viðbrögð, það sem sumum finnst fyndið, virðist öðrum misbjóða ef eitthvað er að marka kommentakerfi Kvennablaðsins.

Sumir hafa hrósað bóndanum hressa á meðan aðrir gagnrýna fyrir meint virðingaleysi gagnvart dýrunum.

„Ég ætla bara að segja það. Þetta er sorglegt að horfa á. Þá er ég að tala um virðingarleysið gagnvart dýrunum. Slétt sama um söng/leik/kvikmyndahæfileika,“ segir einn af þeim sem skilja eftir ummæli, á meðan annar bætir við: „Þetta er mesti viðbjóður sem að ég hef horft á! Augljóslega engin virðing borin fyrir dýrunum þarna!“

Þá koma nokkrir þeirra sem skilja eftir ummæli bóndanum til varnar og útskýra hvernig sauðburður virkar.

“…Bara svo þið vitið þá er kindunum (eða öðrum dýrum) ekki keyrt inná fæðingardeild þegar kemur að því að koma afkvæmunum í heiminn.! Lambakjötið sem þið borðið, þar að segja ef þið eruð ekki bara grænmetisætur, kemur ekki að sjálfum sér í búðina.
Ef það er ekki hægt að hafa gaman af þessi videoi í guðanna bænum sleppið því að horfa OG commenta. Það eru sem betur fer flestir sem hafa gaman af þessu.”

“…það er akkúrat ekkert sem hægt er að setja útá þarna!!! Þó þú sjáir ekki húmorinn í þessu myndbandi þá er það ekki við þau að sakast. Húmorsleysi ykkar sem eru að dæma og væla er synd. Þessar rollur sem þau eiga eru sko heppnar rollur því þær eru þvílíkar dekurrófur og borin mikil virðing fyrir þeim.”

Myndbandið umdeilda má sjá hér fyrir neðan.