Nýjast á Local Suðurnes

Eign Festu í Högum hefur rýrnað um 670 milljónir króna frá opnun Costco

Eign Festu lífeyrissjóðs, sem hefur höfuðstöðvar í Reykjanesbæ, í Högum hefur rýrnað um tæplega 670 milljónir króna í sumar, en lífeyrissjóðurinn heldur utan um tæplega þriggja prósenta hlut í fyrirtækinu. Hagar reka meðal annars verslanir Bónus og Hagkaupa auk fjölda smærri verslana.

Festa er 10. stærsti hluthafi Haga og er þriggja prósenta hlutur sjóðsins metinn á tæplega tvo milljarða króna í ársreikningi sjóðsins fyrir árið 2016, en sé miðað við gengi félagsins í dag hefur verðmæti hlutarins rýrnað um tæplega 670 milljónir króna á þeim fimm mánuðum sem liðnir eru frá opnun verslunar Costco í Garðabæ.

Gengi bréfa í Högum hefur þó haldist stöðugt undanfarin ár og hækkaði til að mynda frá júlí 2015 fram í maí í ár, en frá því að Costco opnaði verslun sína í Kauptúni 23. maí síðastliðin hafa bréf í Högum hins vegar lækkað um 32 prósent.

Greint var frá því í fréttum Rúv að lífeyrissjóðir hafi aukið við hlut sinn í verslunarrisanum í kjölfar opnunar Costco. Sé hins vegar miðað við hluthafalista Haga, sem birtur er á vef fyrirtækisins og ársreikning lífeyrissjóðsins virðist sem Festa hafi ekki fylgt þeirri stefnu annara sjóða.