Íbúðalánasjóður samþykkir uppbyggingu á 9 Leiguheimilum á Suðurnesjum

Íbúðalánasjóður hefur samþykkt uppbyggingu á 385 nýjum Leiguheimilum sem munu rísa í ellefu sveitarfélögum í fyrsta áfanga. Af þessum 385 Leiguheimilum munu 9 rísa í tveimur sveitarfélögum á Suðurnesjum, í Reykjanesbæ og Sandgerði.
Leiguheimilin, sem byggja á nýlegu lagafrumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra, verða langtíma valkostur fyrir almenning á leigumarkaði þar sem leigugreiðslur verða lægri en á almennum markaði. Til að sækja um slíkar íbúðir mega mánaðarlegar tekjur heimilisins ekki vera yfir ákveðnum mörkum. Tekjumörkin fyrir einstakling með tvö börn eru núna 593.583 krónur, fyrir hjón eða sambúðarfólk með tvö börn 751.917 krónur og fyrir hjón eða sambúðarfólk með fjögur börn 949.750 krónur. Ný tekjumörk verða gefin út árlega.
Lögð er sérstök áhersla á að byggja upp nýjar íbúðir og færa inn í Leiguheimiliskerfið. Úthlutunarnefndin hefur mótað ákveðnar meginlínur varðandi stærðir íbúðanna miðað við herbergjafjölda.
Íbúðirnar skiptast í einstaklingsíbúðir, tveggja herbergja, þriggja herberga, fjögurra herbergja og 5 herbergja. Hámarksstærð einstaklingsíbúðanna er 50 fermetrar, 60 fermetrar fyrir tveggja herbergja, 80 fermetrar fyrir þriggja herbergja, 95 fermetrar fyrir fjögurra herbergja og 110 fermetrar fyrir fimm herbergja íbúðir.