Nýjast á Local Suðurnes

Tvöfalda Reykjanesbraut að Hvassahrauni – Lítið framkvæmt á Suðurnesjum

Mynd: Skjáskot You-tube / Ívar Gunnarsson

Alþingi samþykkti á dögunum þingsályktunartillögu um tímabundið fjárfestingarátak stjórnvalda þar sem 6,5 milljörðum króna verður varið í samgöngumál, 550 milljónir í uppbyggingu fjarskiptakerfa og 300 milljónir til byggðamála til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Þær framkvæmdir sem ráðist verður í og tengjast Suðurnesjasvæðinu eru tvöföldun Reykjanesbrautar að Hvassahrauni auk hafnarframkvæmda í Sandgerði og lagfæringa á sjóvarnargörðum í Njarðvík og Keflavík.

Þá var ákveðið að 200 milljónir kr. rynnu aukalega í sóknaráætlanir landshluta. Hægt er að sækja um styrki úr sjóðunum til menningarstarfsemi annars vegar og atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni hins vegar. Markmiðið er að ráðstöfun fjármuna úr sóknaráætlunum sé varið til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags- og byggðamála byggi á áherslum heimamanna.