Nýjast á Local Suðurnes

Birta tillögur að því hvernig mannvirkin koma til með að líta út í Helguvík

Í frummatsskýrslu Stakksbergs vegna fyrirhugaðra breytinga á kísilverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík verða ásýndarbreytingar sýndar á samsettum ljósmyndum. Þetta kemur fram á samráðsgátt fyrirtækisins, en þar má finna nokkrar slíkar myndir.

Á vefsíðunni eru settir nokkrir fyrirvarar við gerð slíkra mynda og tekið fram að fyrirhuguð mannvirki hafi verið teiknuð í þrívídd og komið fyrir í landlíkani til að gefa rétta mynd af afstöðu og hlutföllum mannvirkja frá mismunandi sjónarhornum. Þá er tekið fram að þessar tölvugerðu myndir eru tillögur að því hvernig mannvirki koma til með að líta út í landslaginu.

Þá þarf að hafa í huga að tvívíðar ljósmyndir og samsettar myndir eru aldrei nákvæmlega eins og raunveruleikinn þar sem ekki er hægt að eða sýna fullkomlega á mynd þann margbreytileika og fjölbreytni sem áhorfandi upplifir með eigin augum.  Slíkar myndir eru því einungis nálgun á það hvernig fyrirhuguð mannvirki koma til með að líta út en eru upplýsandi fyrir alla aðila við undirbúning framkvæmda.

Í frummatsskýrslu verða birtar þrjár ljósmyndir frá hverju sjónarhorni:

  • Ásýnd lands eins og hún er í dag með núverandi mannvirkjum.
  • Samsett mynd sem sýnir áætlaða ásýnd með fullbyggðri verksmiðju Stakksbergs.
  • Samsett mynd sem sýnir tilgátu um fullbyggt iðnaðarsvæðið í Helguvík.

Myndirnar eru settar upp með stiku þannig að hægt er að færa stikuna til og sjá breytingarnar. Hægt er að bera saman núverandi ástand og áætlaða ásýnd með fullbyggðri verksmiðju annars vegar og hins vegar fullbyggða verksmiðju og tilgátu um fullbyggt iðnaðarsvæði í Helguvík.