Nýjast á Local Suðurnes

Áreitismál í Reykjanesbæ – Þekkt að hælisleitendur gefi upp rangan aldur

Umræða um áreiti sem átti sér stað um borð í almenningsvagni í Reykjanesbæ heldur áfram á samfélagsmiðlunum, en forsaga málsins er sú að lögregla var tvívegis kölluð til eftir að erlendir aðilar höfðu áreitt börn um borð í almenningsvagni.

Samkvæmt tilkynningu sem lögregla sendi frá sér vegna málsins voru gerendurnir tveir og undir lögaldri og hafa verið sendir úr landi – Sú tilkynning stangast þó á við frásagnir fólks sem Suðurnes.net hefur rætt við og segir gerendurna hafa verið bæði fleiri og eldri.

Myndir af meintum gerendum hafa gengið manna á milli og hefur blaðamaður séð eina slíka, en staðhæft er að maður sem er á þeirri mynd hafi verið með þeim yngri í för og að sá hafi takið þátt í athæfinu. Lögregla færði þó aðeins þá tvo yngri til yfirheyrslu, samkvæmt tilkynningunni. Myndin sem um ræðir er tekin af barni sem segist hafa orðið fyrir áreiti af hendi viðkomandi manns í almenningsvagninum sem um ræðir og af myndinni að dæma er ljóst að maðurinn er á fullorðinsaldri.

Mikill fjöldi hælisleitenda er á landinu um þessar mundir og er orðið algengt að þeir gefi upp rangan aldur við komu til landsins, eða ef þeir af einhverjum orsökum öðrum lenda í klóm lögreglu. Samkvæmt heimildum Suðurnes.net eru flóttamenn mjög meðvitaðir um að börnum séu tryggð mannréttindi í ýmsum alþjóðasamningum, sem mörg ríki á Vesturlöndum hafa skuldbundið sig til að hlíta. Fyrir vikið hefur orðið fjölgun á komu ungra flóttamanna hingað til lands, sem segjast vera yngri en 18 ára.

Á vef Útlendingastofnunnar kemur fram að vel yfir 1000 manns hafi óskað eftir hæli hér á landi á síðasta ári og samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra er gert ráð fyrir að um 100 manns verði fluttir úr landi í janúar.