Nýjast á Local Suðurnes

Birta dónaleg skilaboð á vefnum: “Flestar mínar vinkonur fengið óumbeðna typpamynd”

Suðurnesjafólkið Styrmir Barkarson og Sólborg Guðbrandsdóttir stofnuðu fyrir skömmu Instagram-síðu undir nafninu „Fávitar,“ Á  síðunni er að finna ósæmileg skeyti ókunnugra karlmanna sem send eru til kvenna í einkaskilaboðum samfélagsmiðlanna.

Styrmir, sem býr í Svíþjóð um þessar mundir, segist í samtali við Suðurnes.net hafa fengið hugmyndina eftir að sænsk handboltakona birti ósæmileg skilaboð, á Instagram, sem henni höfðu borist frá ókunnum karlmönnum.

 “Í sænskum fjölmiðlum hefur svolítið verið rætt um sænska handboltastjörnu sem ákvað að birta á instagram skilaboð sem hún frá ókunnugum karlmönnum. Mér fannst þetta svolítið sniðug hugmynd og ákvað að yfirfæra hana á Ísland.” Sagði Styrmir.

Styrmir viðraði hugmyndina við Sólborgu Guðbrandsdóttur og saman ákváðu þau að koma verkefninu á koppinn, en tilgangurinn er meðal annars að draga hegðun þeirra einstaklinga sem stunda þessa hana fram í dagsljósið. Athygli hefur vakið að nöfn þeirra sem senda skilaboðin eru falin og aðspurður segir Styrmir að aldrei hafi staðið til að birta nöfn þessara einstaklinga opinberlega, enda sé tilgangurinn ekki að kalla aftir ofsóknum á hendur þeim.

“Tilgangur síðunnar er ekki að kalla eftir ofsóknum á hendur einstaka fávitum, heldur að draga hegðun þeirra fram í dagsljósið.” Sagði Styrmir. “Þetta er ekki vandi sem er bundinn einstaklinga heldur samfélagið og við þurfum að horfast í augu við hann. Þetta er að gerast. Í hugum margra er það ásættanlegt samskiptamynstur að biðja ókunnuga konu eða karl um kynlíf og brjálast svo þegar viðkomandi vill það ekki eða kærir sig ekki um að sjá á þér tittlinginn. Hjá sumum er það í lagi að drusluskamma ókunnugar stelpur og stráka milli þess sem þeir heimta af þeim kynlíf.” Sagði Styrmir.

Sólborg segist í samtali við Vísi.is hafa fengið niðrandi skilaboð í gegnum samfélagsmiðlana og það sama megi segja um flestar hennar vinkonur.

„Markmiðið er að vekja athygli á samskiptum sem eru því miður viðloðandi við samfélagið í dag. Ég held að flestar vinkonur mínar hafi lent í því að fá óumbeðna typpamynd senda frá einhverjum bláókunnugum karlmanni út í bæ.“

Á þeim þremur dögum sem síðan hefur verið í gangi hefur verið birtur fjöldi mynda þar sem konur hafa tekið skjáskot af orðsendingum ókunnugra karlmanna.

Hér má finna sænsku vefsíðuna sem er fyrirmynd Fávita.