Nýjast á Local Suðurnes

Leikskólastarf og bæjarhátíð í hættu verði skipuð fjárhaldsstjórn

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir að ef komi til fjárhaldsstjórnar verði stofnuð nefnd hjá innanríkisráðuneytinu sem muni endurmeta alla starfsemi bæjarfélagsins og ákveða hvað sé nauðsyn og hvað ekki. Þá verði meðal annars tekið mið á hver lögbundin skylduverkefni sveitarfélaga séu. Sveitarfélagið mun sem kunnugt er afhenda eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga tilkynningu þess efnis í dag að viðræður við kröfuhafa hafi ekki skilað árangri.

„Þar verða fjölmörg atriði sem þarf að skoða. Til dæmis Ljósanótt sem kostar okkar 20 milljónir á ári, rekstur tónlistarskóla, rekstur leikskóla, rekstur íþróttamannvirkja, fyrir utan þau sem okkur ber skylda til að standa undir vegna leikfimikennslu, og annað sem flokkast ekki undir lögbundin skylduverkefni sveitarfélaga.“ Segir Kjartan Már í samtali við Vísi.is

Kjartan segist þó vonast til að þjónusta á borð við leikskólastarf haldi áfram því án þess muni allt atvinnulíf lamast, hann á einnig von á því að Ljósanótt verði haldin í ár enda sé undirbúningur það langt kominn að allt útlit er fyrir að hún verði haldin með einhverju sniði.

„Við vitum það nú líka að það er ekki hægt að skera samfélag það mikið niður að það vilji enginn vera hérna. Ef það er ekki alvöru mannlíf þá náttúrulega flytja þeir í burtu sem geta og vilja búa við þær aðstæður.“