Njarðvíkursigur í grannaslagnum

Njarðvíkingar verða í 3.-6. sæti Domino´s-deildarinnar í körfuknattleik ásamt Haukum, Þór Þorlákshöfn og Stjörnunni yfir hátiðirnar en Grindvíkingar í því áttunda, eftir leik liðanna í Ljónagryfjunni í kvöld sem lauk með sigri Njarðvíkinga 87-71. Bæði lið léku án útlendinga í leiknum.
Grindvíkingar voru lengi að komast í gang og skoruðu ekki stig fyrstu þrjár mínútur leiksins, leikurinn var þó nokkuð jafn megnið af fyrir hálfleik þó svo að Njarðvíkingar hafi verið skrefinu á undan í flestum sínum aðgerðum, staðan í leikhléi var 40-36 heimamönnum í vil.
Þriðji leikhluti var jafn eins og þeir tveir fyrstu en Njarðvíkingar leiddu þó leikinn yfirleitt með nokkrum stigum. Haukur Helgi Pálsson sem hafði haft verið í rólega gírnum framan af leik tók sig til og átti flottan fjórða leikhluta á meðan Grindvíkingar virkuðu þreyttir, það tryggði Njarðvíkingum 16 stiga sigur að lokum, þó þær tölur segi kannski ekki alla söguna.
Haukur Helgi Pálsson skoraði 21 stig og tók 8 fráköst fyrir Njarðvíkinga, Logi Gunnarsson skoraði 18 og Maciej Stanislav Baginski 17.
Hjá Grindvíkingaum var Þorleifur Ólafsson stigahæstur með 17 stig og Ómar Örn Sævarsson skoraði 16, auk þess sem hann tók 12 fráköst.