Njarðvíkingar lögðu Grindvíkinga í Gryfjunni

Njarðvíkingar unnu öruggan sigur á grönnum sínum úr Grindavík í Ljónagryfjunni í kvöld. Lokatölurnar urðu 97-75.
Leikurinn var þó spennandi framan af, en staðan að loknum fyrri hálfleik var 46-44 fyrir gestina úr Grindavík. Þeir misstu hins vegar dampinn í þriðja leikhluta og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Njarðvíkinga sem voru að hitta afar vel fyrir utan þriggja stiga línuna.
Oddur Rúnar Kristjánsson átti flottan dag á fjölum Ljónagryfjunnar, en hann var stigahæstur hjá Njarðvík með 22 stig, Terrell Vinson skoraði 19 og þeir Logi Gunnarsson og Maciek Baginski 12 stig hvor.
Hjá Grindavík var Ólafur Ólafsson stigahæstur með 19 stig, Jóhann Árni Ólafsson með 13, Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði 12 stig og tók 13 fráköst.