Suðurnesjaliðin áfram í 16 liða úrslit Powerade-bikarsins

Haukur Helgi Pálsson, nýr leikmaður Njarðvíkinga, skoraði sigurkörfuna í bikarleik gegn sterku liði Tindastóls í sínum fyrsta heimaleik með Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni. Njarðvík sigraði leikinn 66:63 og tryggðu sér þar með sæti í 16 liða úrslitum Powerade-bikarsins.
Lokasekúndur leiksins voru æsispennandi, Tindastóll var í sókn í stöðunni 63:63 og um 20 sekúndur eftir, Helgi Rafn Viggósson hitti ekki og Njarðvíkingar keyrðu fram völlinn, Haukur sem var einn og óvaldaður setti þriggja stiga skotið niður. Tindastólsmenn fengu tækifæri til að jafna leikinn en skot þeirra frá miðju vildi ekki niður.
Haukur Helgi Pálsson var stigahæstur Njarðvíkinga með 20 stig, Marquise Simmons skoraði 14 og Logi Gunnarsson 10.
Keflvíkingar fara í 16 liða úrslitin eftir að hafa lagt lið KV með áttatíu stiga mun 136:56 á heimavelli KV í Kennaraháskólanum.
Earl Brown Jr. skoraði 36 stig og tók 9 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson skoraði 17 stig.
Í Grindavík tóku heimamenn á móti liði FSu, sá leikur náði aldrei að verða spennandi og unnu Grindvíkingar leikinn með 20 stiga mun, 91-71.
Eric Julian Wise skoraði 32 stig, Jón Axel Guðmundsson 18 og Páll Axel Vilbergsson 15.