Andlit bæjarins: Síðasta sýningarhelgin um næstu helgi
Nú er komið að síðustu sýningarhelgi Andlita bæjarins, sýningar sem opnuð var á Ljósanótt.
Við ætlum að ljúka þessu með því að ljósmyndarinn Björgvin Guðmundsson, tekur á móti gestum í salnum þann 8. nóvember kl. 14:30 og býður upp á létt spjall um verkefnið. Segir á Facebook-síðu verkefnisins.
Boðið verður upp á myndatöku frá klukkan 15 – 16 fyrir þá sem enn hafa ekki látið taka af sér mynd.
Kl. 16 – 17 er síðan hægt að nálgast myndir sem þegar hefur verið greitt fyrir.
Á sama tíma verður ljósmyndarinn Vigdís Viggósdóttir á staðnum, en sýningu hennar, HEIMASÆTAN, í anddyri Duus Safnahúsa lýkur einnig á sunnudag. Verk Vigdísar samanstendur af 6 ljósmyndum og 6 örsögum og
fjallar um ást í meinum, líf í felum og innri baráttu.Vigdís útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum 2014.
Þetta verk varð til á listasetrinu Bæ á Höfðaströnd í Skagafirði núna í vor. Myndirnar eru teknar í eyðibýlinu Miðhúsum þar sem örsögur leyndust í hverju skúmaskoti.