Nýjast á Local Suðurnes

Fyrrverandi sparisjóðsstjóri veitti 100 milljóna króna yfirdrátt án trygginga

Ákæra á hendur Geirmundi Kristinssyni, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Keflavíkur, var gerð opinber í dag.

Á vef RÚV kemur fram að í ákærunni sé Geirmundur sakaður um umboðssvik með því að veita félaginu Duggi ehf. 100 milljóna króna yfirdráttarlán í júní 2008, án þess að afstaða lánanefndar sparisjóðsins lægi fyrir, án þess að áhættu- og greiðslumat færi fram og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti.

Þá er Geirmundur sakaður um umboðssvik sem stjórnarmaður Víkna ehf., sem var dótturfélag sparisjóðsins. Samkvæmt ákæru framseldi hann stofnfjárbréf í sparisjóðnum upp á rúmlega 683 milljónir króna frá Víkum til félagsins Fossvogshyls ehf. í árslok 2007, án þess að nokkuð endurgjald kæmi fyrir stofnfjárbréfin.

Nokkrum mánuðum síðar, 7. mars 2008, voru stofnfjárbréfin skráð á Fossvogshyl hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Sama dag var félagið, samkvæmt ákæru, framselt frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte til sonar sparisjóðsstjórans, og stofnfjárbréfin því komin í eigu sonarins, segir á vef Ríkisútvarpsins.

Geirmundur segist hafa aðstoðað lögreglu við rannsókn málsins, eins og honum hafi verið unnt, og upplýst allt sem hann hafi getað upplýst. Það séu honum veruleg vonbrigði hve langan tíma rannsóknin tók.