Launakjör bæjarfulltrúa og nefndarfólks nú aðgengileg á vefnum
Laun og nefndarkjör þeirra kjörnu fulltrúa sem starfa í þágu Grindavíkurbæjar eru nú aðgengileg á vef bæjarins. Á bæjarráðsfundi í síðustu viku, þann 16. janúar síðastliðinn var tillaga lögð fram af forseta bæjarstjórnar, Sigurði Óla Þorleifssyni þess efnis að Grindavíkurbær myndi birta launakjör þeirra sem sitja í ráðum, nefndum og stjórnum bæjarins á vef Grindavíkur. Tillagan var samþykkt samhljóða og nálgast má skjalið með þeim upplýsingum hér.
Bæjarmálafréttir verða vikulega
Bæjaryfirvöld ræddu auk þess, á sama fundi, upplýsingagjöf til bæjarbúa og kom fram í umræðum að heimasíða sveitarfélagsins væri kjörin vettvangur til að miðla upplýsingum um framkvæmdir og viðburði á vegum bæjarins. Heimasíðan er einnig góður vettvangur til að miðla því sem í gangi er innan stjórnsýslunnar og munu því verða birtar vikulegar fréttir af bæjarmálunum undir liðnum “Bæjarmálafréttir” og verða þær fastur liður á fimmtudögum.
Fundir bæjarstjórnar eru aðgengilegir á netinu
Ferill mála hjá Grindavíkurbæ er með þeim hætti að fastanefndir sveitarfélaganna funda að jafnaði einu sinni í mánuði en bæjarráð fundar vikulega, alla þriðjudaga klukkan 17:00. Síðasta þriðjudag í mánuði eru síðan opnir fundir bæjarstjórnar og hefjast þeir klukkan 17:00. Þeim er einnig varpað á netið fyrir þá sem áhuga hafa að horfa og eru þeir fundir síðan aðgengilegir á netinu á YouTube rás bæjarins.